Innlent

Bálhvasst á Austfjörðum

MYND/bh

Bálhvasst hefur verið á Austfjörðum í morgun og stórhríð geisað á fjallvegum. Veður er hins vegar gengið niður á Vestfjörðum og þeir Bolvíkingar, sem urðu að yfirgefa hús sín í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu, fengu að snúa aftur heim í morgun.

Óveðrið skall á fyrir austan snemma í morgun og er afleitt veður á fjörðunum, en það nær hinsvegar ekki langt inn í land. Þannig hefur til dæmis verið þokkalegt veður á Egilsstöðum í morgun. Ekki er vitað um slys eða óhöpp vegna veðursins fyrir austan , enda fáir á ferð að sögn lögreglu.

Björgunarsveitarmenn aðstoðuðu fólk í föstum bílum á Holtavörðuheiði og í Víðidal í gærkvöldi og bóndi á dráttarvél kom konu til hjálpar, sem var föst í bíl sínum á Eyrarfjalli við Ísafjarðardjúp, en óveðrinu tók að slota upp úr klukkan þrjú í nótt. Ekki er vitað um slys eða óhöpp nema hvað björgunarsveitarmaður fótbrotnaði í snjólfóði á Súðavíkurvegi í gær.

Sex hús voru rýmd í Bolungarvík og gistu 16 manns úr þeim í öðrum húsum á staðnum, en fengu að snúa heim í morgun. Vegagerðarmenn byrjuðu snemma í morgun að ryðja vegi út frá Ísafirði, en ófært varð til allra nágrannabæja í gærkvöldi.

Veðrustofan lýsti í gærkvöldi yfir víðbúnaðarstigi á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu, en því verður væntanlega aflétt þegar eftirlitsmenn verða búnir að kanna snjóalög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×