Innlent

Líkamsárás á Laugaveginum í morgun

Tveir menn um tvítugt réðust á mann frá Marokkó á Laugaveginum í morgun. Tildrög árásarinnar liggja ekki fyrir.

Atvikið átti sér stað ofarlega á Laugaveginum, nánar tiltekið fyrir utan Herrahúsið. Þar kom til snarpra orðaskipta á milli tveggja íslenskra karlmanna um tvítugt og Marokkómannsins, sem er rúmlega þrítugur. Þegar orðaskiptin höfðu staðið í stutta stund, gripu mennirnir tveir til handalögmála. Þeir börðu Marokkómanninn ítrekað í andlitið og kýldu hann í síðuna. Að sögn lögreglu er maðurinn nokkuð lemstraður á líkamanum og eins sér verulega á andliti hans eftir hnefahögginn og ekki loku fyrir það skotið að hann hafi nefbrotnað. Árásarmennirnir tveir, sem voru báðir ölvaðir, gista nú fangageymslur. Ekki er vitað hvers vegna þeir réðust á manninn, en að sögn lögreglunnar í Reykjavík verða þeir yfirheyrðir um hádegisbilið, þegar mesta víman verður runnin af þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×