Erlent

Vopnahlé verður ekki virt

Liðsmenn hersveita Al-Aqsa píslarvottanna.
Liðsmenn hersveita Al-Aqsa píslarvottanna. MYND/AP

Spenna magnast meðal Palestínumanna í kjölfar palestínsku þingkosninganna í vikunni. Leiðtogar Hamas-samtakanna, sigurvegara kosninganna, hafa hafnað óskum alþjóðasamfélagsins um að afvopnast og liðsmenn í Hersveit Al-Aqsa píslarvottanna segjast ekki ætla að virða vopnahlé og segja byssukúlum sínum verða beint gegn Ísraelsmönnum og liðsmönnum Fatah.

15 þúsund stuðningsmenn Fatah-fylkingar Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, komu saman í gærkvöld og kröfuðst afsagnar forystu Fatah vegna þess afhroðs sem fylkingin beið í þingkosningunum í Palestínu í fyrradag. Hamas-samtökin náðu hreinum meirihluta á þingi og hefur verið falið að mynda ríkisstjórn. Hamas-samtökin vilja fá Fatah-fylkinguna til liðs við sig en því hafna stuðningsmenn Fatah.

Bush Bandaríkjaforseti sagði í sjónvarpsviðtali að fjárstuðningur við heimastjórn Palestínumanna yrði skertur ef Hamas-liðar legðu ekki af vopnaðir baráttu sinni. Ísraelsmenn hafa lýst því yfir að þeir semji ekki við ríkisstjórn Hamas-samtakanna.

Einn af forystumönnum Hamas sagði í morgun að ekki yrði hægt að kúga Palestínumenn til hlýðni með þessum hætti. Því væri þessum kröfum hafnað. Hamas liðar ætluðu að halda vopnum sínum og berjast gegn hernámi Ísraela.

Liðsmenn hersveita Al-Aqsa píslarvottanna, klofningur úr Fatah, taka í sama streng og ganga svo langt að segja að þeir ætli ekki að virða það vopnahlé sem sé nú í gildi. Byssukúlum þeirra verði beint gegn Ísraelum og spilltum öflum innan Fatah. Hann sagði þetta gert í samvinnu við alla herskáa hópa á Vesturbakkanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×