Innlent

Spennandi verkefni

Þorsteinn Pálsson, verðandi ritstjóri Fréttablaðsins.
Þorsteinn Pálsson, verðandi ritstjóri Fréttablaðsins. MYND/GVA

Þorsteinn Pálsson, nýráðinn ritstjóri Fréttablaðsins, segist vona að hann hafi verið ráðinn á eigin verðleikum en ekki sem tilraun til friðþægingar við forystu Sjálfstæðisflokksins. Hann segir ekki von á stórbreytingum á blaðinu fyrst í kjölfar ráðningar sinnar.

Þorsteinn Pálsson, fyrrum forsætisráðherra, sendiherra og ritstjóri, og verðandi ritstjóri Fréttablaðsins hitti starfsfólk blaðsins í morgun og ræddi við þau um komu sína til starfa. Þorsteinn tekur til starfa síðar í þessum mánuði og verður ritstjóri við hlið Kára Jónassonar.

"Mér þótti þetta áhugaverður kostur," segir Þorsteinn og telur það spennandi verkefni að taka við ritstjórn Fréttablaðsins.

Fjölmiðlar í eigu 365 fjölmiðla hafa um nokkurt skeið verið þyrnir í augum margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Nú ber svo við að þrír Sjálfstæðismenn hafa verið ráðnir í lykilstörf á miðlum fyrirtækisins á skömmum tíma, þeir Ari Edwald sem framkvæmdastjóri 365 og Björgvin Guðmundsson sem ritstjóri DV. En er þetta friðþæging við forystu Sjálfstæðisflokksins? "Ég skal ekki segja neitt um það. Ég vona að til mín hafi verið leitað vegna þess að ég hafi eitthvað fram að færa," svarar Þorsteinn. "Ég vonast til að geta lagt þessu blaði lið og haldið áfram að þróa það. Það hefur verið í mjög hraðri þróun."

"Það sem er liðin tíð í deilum einstaklinga er ekki minn vandi, mitt verkefni framundan er allt annað," segir nýráðinn ritstjóri Fréttablaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×