Innlent

Yoko Ono á leið til landsins

MYND/AP

Yoko Ono, ekkja bítilsins John Lennon, er væntanleg hingað til lands þann 25. febrúar til að vera viðstödd Vetrarhátíð í Reykjavík. Þar mun hún ræða listaverk sem hún hefur gefið borginni, svokallaða Friðarsúlu, en um er að ræða 10 til 15 metra háa upplýsta glersúlu. Hún verður fyllt með óskum um frið sem fólk um allan heim hefur skrifað og utan á súluna verða greyptar tvær ljóðlínur á mörgum tungumálum. Önnur þeirra er eftir Yoko Ono sjálfa, "A dread you dream together is reality", en hin kemur úr einu frægasta lagi John Lennon, Imagine, og er það hin fræga lína: "Imagine all the people, living life in peace." Þetta verður í annað sinn sem Yoko Ono kemur hingað til lands.

Að undanförnu hefur verið litið til verkfræðilegra lausna á hugmynd Yoko svo þær falli að hugmynd hennar og standist íslenska veðráttu. Af hálfu borgarinnar hafa verið gerðar grófar verklýsingar í samvinnu við Orkuveituna sem bornar verða undir listamanninn. Þá er eftir að kostnaðarmeta verkið, en Ono gefur höfundarlaun sín.

Ekki liggur fyrir nákvæm kostnaðaráætlun, enda verða hugmyndir um úfærslu og staðsetningu ræddar við Ono þegar hún kemur hingað í febrúar. Árið 2004 bauð Ono Reykjavíkurborg að friðarsúla yrði reist í Reykjavík. Ono tók ástfóstri við Ísland þegar hún kom hingað til lands fyrir 14 árum og hélt sýningu á Kjarvalsstöðum. Það er ósk hennar að súlan rísi í því landi sem er á toppi heimsins í norðri, mitt á milli Ameríku og Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×