Innlent

Kaupskipaútgerð að leggjast af

Bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðingar reyndu í dag að sannfæra fjármálaráðherra um að kaupskipaútgerð á Íslandi væri að leggjast af vegna aðgerðarleysis stjórnvalda. Árni Matthiesen hummaði það nánast framaf sér.

Eimskip, Samskip og Olíudreifing eru annaðhvort búin eða í þann mund að flytja skráningu skipa sinna og áhafna til Færeyja. Ástæðan er sú að Færeyingar leggja þrjátíu og fimm prósenta skatt á laun sjómanna, þeir taka sjö prósent til sín sjálfir en skila tuttugu og átta prósentum til útgerðanna, til þess að lækka áhafnakostnað og fá skipin inn á sína skipaskrá. Guðmundur Hallvarðsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók málið upp utan dagskrár, á Alþingi, í dag.

Hver þingmaðurinn af öðrum, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, fór í pontu til þess að taka undir áhyggjur Guðmundar. Fjármálaráðherra var bent á að ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa tekið upp svipað kerfi og Færeyingar og Evrópusambandið hefur hvatt aðildarríki sín til þess að gera slíkt hið sama, til þess að halda í kaupskipaflota sína.

Árni Matthiesen, fjármálaráðherra, virtist þó hafa litlar áhyggjur af málinu. Hann bað þingmenn að einfalda ekki málið um of, það væri ekkert einfalt að afsala sér sköttum, allra síst þegar það snerti ekki aðeins ríkið heldur einnig sveitarfélögin, eins og væri í þessu tilfelli. Hann sagði þó að haldnir yrðu fundir með hagsmunaaðilum til þess að kanna hvort rétt væri að gera einhverjar breytingar og hverjar þær ættu að vera.

Guðmundur Hallvarðsson segir að málið sé ekki flóknara en það að kaupskipaútgerð á Íslandi, heyri sögunni til, ef ekkert verði gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×