Innlent

Þjónusta fjölmennasta atvinnugreinin á Íslandi

Framlag þjónustu til landsframleiðslu eykst ár frá ári og þjónusta er fjölmennasta atvinnugreinin á Íslandi. Iðnaðar-og viðskiptaráðherra segir mikilvægt að efla ólíkar starfsgreinar til að auka sveigjanleika í efnahagslífinu.

Árið 2005 var framlag þjónustu til landsframleiðslu komið í 55%. Þjónusta er sú atvinnugrein sem flestir vinna við á Íslandi en árið 2004 voru um 57% starfa á vinnumarkaði í þjónustugreinum og hefur þjónustustörfum fjölgað um 17% frá árinu 1998. Þá voru tekjur vegna þjónustuútflutnings 120 milljarðar á síðasta ári sem jafngildir 29 prósentum af gjaldeyrirtekjum þjóðarinnar það ár. Þetta er meðal þess sem kom fram á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu á Grand hótel í dag en þar var kynnt skýrsla um mikilvægi þjónustugeirans fyrir íslenskt efnahagslíf. Skýrslan er unnin af viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík fyrir Samtök verslunar og þjónustu. Valgerði Sverrrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra var við það tækifæri afhentar tillögur og ábendingar stjórnar samtakanna um hvernig megi efla enn frekar þjónustugreinar á Íslandi. Valgerður segir mikilvægt að efla fjölbreyttar atvinnugreinar til að auka stöðugleika í íslensku efnahagslífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×