Innlent

200 færri á biðlistum LSH

MYND/Hari

Tvö hundruð færri eru á biðlista eftir skurðaðgerðum á Landspítalanum nú en á sama tíma í fyrra. Þá sýnir bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu tvo mánuði ársins að rekstur spítalans er í jafnvægi.

Þetta kemur fram í nýjum starfsemistölum spítalans fyrir fyrstu tvo mánuði ársins. Þar segir að skurðaðgerðum haldi áfram að fjölga og í mörgum sérgreinum sé alls engin bið, eins og í krabbameinslækningum. Í öðrum sé bið sem talin sé eðlileg eða viðunandi, eins og í barnalækningum og almennum skurðlækningum. Þá sýna tölurnar að fæðingum fækkaði um tvö komma fimm prósent fyrstu tvo mánuði ársins milli ára en komum á slysa- og bráðamóttökur spítalans fjögaði um 4,1 prósent miðað við sömu mánuði í fyrra. Enn fremur sýna tölurnar að nærri eitt hundrað einstaklingar á spítalanum bíði eftir varanlegri vistun á hjúkrunarheimili og yfir sextíu bíða eftir búsetuúrræði á vegum félagsþjónustunnar. Bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu tvo mánuði ársins er einnig kynnt í stjórnunarupplýsingum spítalans og þar kemur fram að reksturinn er í jafnvægi eða um þrjár milljónir króna umfram rekstraráætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×