Innlent

Malbikað umhverfis Snæfellsjökul

Berglín ehf. í Stykkishólmi átti lægsta tilboð í gerð 17 kílómetra langs vegar með bundnu slitlagi á utanverðu Snæfellsnesi. Með vegagerðinni lýkur malbikun vegarins milli Arnarstapa og Ólafsvíkur og verður þá unnt að aka hring um Snæfellsnes á bundnu slitlagi með því að fara Vatnaleið en malarvegur er enn um Fróðárheiði. Berglín bauð tæpar 160 milljónir króna sem var um 75% af kostnaðaráætlun, en tilboð voru opnuð í fyrradag. Alls buðu átta verktakar í verkefnið og voru öll tilboðin undir kostnaðaráætlun. Vegarkaflinn er milli Háahrauns og Saxhóls. Svæðið er innan þjóðgarðs Snæfellsjökuls og er á náttúruminjaskrá. Settir verða áningarstaðir við veginn og útskot í samráði við þjóðgarðsvörð. Verkinu á að vera lokið í júlímánuði árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×