Innlent

Flóðið í Hvítá verður við Selfoss um kl. 17

Brúnni yfir Hvítá við Brúarhlöð hefur verið lokað vegna vatnavaxta.
Brúnni yfir Hvítá við Brúarhlöð hefur verið lokað vegna vatnavaxta. MYND/Stöð 2

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér tilkynningu vegna flóðs í Hvítá en veginum um Brúarhlöð hefur þegar verið lokað þar sem áin flæðir yfir veginn. Samkvæmt almannavörnum má búast við því að flóðið í ánni verði komið niður fyrir Vörðufell á Skeiðum upp úr kl.15 í dag og verði við Selfoss upp úr kl.17.

Einnig er búið að loka veginum við Auðsholt, í ofanverðri Árnessýslu, vegna vatnavaxta í Hvítá. Almannavarnir segja að á þessari stundu sé ekki ljóst hvort flóðið sé vegna leysinga eða úrkomu. Lögreglan á Selfossi og Vatnamælingar Orkustofnunar fylgjast með ástandinu ásamt almannavörnum. Þrjár af fjórum almannavarnanefndum í Árnsessýslu hafa verið boðaðar til fundar á lögreglustöðinni á Selfossi kl. hálftólf vegna flóðannaog verður farið yfir stöðu mála.

Vegagerðin bendir fólki á að fylgjast með upplýsingum um færð á vef vegagerðarinnar www.vegagerdin.is eða í síma 1777.

Við þetta má bæta að ófært er orðið vegna vatnaskemmda við Ferjukot í Borgarfirði, en Ferjukot er við gömlu brúna yfir Hvítá.

Kort af flóðunum
Það eru víða vatnavextir á SV-landiGrafík/Stöð 2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×