Innlent

Atlantsskip kanna arðsemi strandsiglinga til Ísafjarðar og fleiri staða

Frá athafnasvæði Atlantskipa í Kópavogi
Frá athafnasvæði Atlantskipa í Kópavogi MYND/Atlantskip
Atlantsskip kanna arðsemi strandsiglinga til Ísafjarðar og fleiri staða, að sögn Bæjarins Besta á Ísafirði. Á fundi í samgönguráðuneytinu í gær með fulltrúum skipafélaga, Samtaka verslunar og þjónustu og Vegagerðarinnar var rætt um þróun í landflutningum og strandsiglingum. Þar upplýsti Gunnar Bachmann, framkvæmdastjóri Atlantsskipa, að fyrirtækið væri að kanna möguleika á því að hefja strandsiglingar út frá Reykjavík, meðal annars til Ísafjarðar. Þegar hefur verið gengið frá helstu atriðum við samstarfsaðila á Akureyri, um strandsiglingar þangað, og nú er verið að kanna fleiri viðkomustaði. Hann sagði hugmyndina að sigla vikulega og ekki væri ætlunin í bili að siglingarnar myndu ná umhverfis landið. Forsendur þess að unnt sé að fara af stað sagði hann vera að ná samningum um flutninga á 2.600 gámum á ári. Flutningaskipið Geysir, sem nú er Ameríkusiglingum, lýkur verkefnum sínum í janúar á næsta ári og sagði Gunnar mögulegt að hefja strandsiglingarnar upp úr því ef allt gengi upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×