Erlent

Fimmta Amish stúlkan látin

Fimmta Amish stúlkan lést af sárum sínum í morgun eftir skotárás í barnaskóla í Bandaríkjunum í gær. Sex aðrar liggja alvarlega slasaðar á sjúkrahúsi.

Árásarmaðurinn Charles Carl Roberts, var 32 ára vörubílsstjóri og hafði fyrr um daginn keyrt þrjú barna sinna í skólann. Hann réðist inn í Amish skólann í smábænum Nickel Mines í Pensilvaniu og tók þá sem þar voru í gíslingu. Hann sleppti síðan öllum drengjum og kennurum áður en hann tók eigið líf.

Lögregla rannsakar enn ástæðu árásarinnar, en í bréfi sem maðurinn skildi eftir sig sagðist hann vera reiður út í Guð og árásin væri hefnd fyrir 20 ára gamalt atvik. Maðurinn undirbjó árásina gaumgæfilega, var vopnaður þrem byssum og tilbúinn í langa gíslatöku, hafði meðal annars föt til skiptanna. Lögregla segir Roberts ekki hafa ætlað að komast lifandi frá gíslatökunni.

Eiginkona mannsins, Marie, sendi frá sér tilkynningu þar sem hún sagðist ekki þekkja þessa hlið eiginmanns síns, hann hafi verið ljúfur og tillitssamur fjölskyldufaðir þau tíu ár sem þau voru gift.

Íbúar í Nickel Mines eru slegnir eftir atburðinn en sex stúlkur liggja enn alvarlega slasaðar á sjúkrahúsi.

Þetta er þriðja skotárásin í Bandarískum skóla á einni viku.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×