Erlent

Fjórða Amish stúlkan látin

Árásarmaðurinn Charles C. Roberts ásamt tilvonandi konu sinni Marie, við trúlofun þeirra árið 1996.
Árásarmaðurinn Charles C. Roberts ásamt tilvonandi konu sinni Marie, við trúlofun þeirra árið 1996. MYND/AP

Fjórða stúlkan er látin eftir skotárás í barnaskóla Amish fólks í Bandaríkjunum í gær.

Árásarmaðurinn, Charles Carl Roberts, réðist inn í skólann í Pensylvaníu snemma dags og tók þá sem þar voru í gíslingu. Hann sleppti síðan öllum drengjum og kennurum, en batt síðan nokkrar skólastúlkur og skaut þær í höfuðið áður en hann tók sitt eigið líf.

Roberts var 32 ára fjölskyldumaður og hafði fyrr um morguninn keyrt þrjú barna sinna í skóla. Hann var vörubílsstjóri og bjó ásamt konu og börnum í nærliggjandi bæ.

Lögregla er enn að rannsaka ástæðu árásarinnar, en í bréfi sem hann skildi eftir sig sagðist hann vera reiður út í Guð og árásin væri hefnd fyrir atvik sem gerðist fyrir tuttugu árum. Lögregla segir manninn hafa undirbúið árásina gaumgæfilega. Hann var vel vopnum búinn og undirbúinn undir langa gíslatöku, hafði meðal annars föt til skiptanna.

Sjö stúlkur liggja enn alvarlega slasaðar á spítala. Þetta er þriðja skotárásin í Bandarískum skóla á einni viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×