Innlent

"Nokkrir ansi ósáttir" - prófkjör Framsóknarmanna í norðvestur

Kristinn H. Gunnarsson hefur setið á þingi frá árinu 1991.
Kristinn H. Gunnarsson hefur setið á þingi frá árinu 1991. MYND/Gunnar V. Andrésson

Framboðslisti Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi verður ákveðinn með póstkosnu prófkjöri, þvert á tillögu stjórnar kjördæmasambandsins sem vildi stilla upp á lista. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknar, segir afar fátítt að tillaga stjórnar kjördæmisráðs hljóti ekki brautargengi og segir það endurspegla miklar áhyggjur af stöðu flokksins.

"Nokkrir eru ansi ósáttir við að verða undir en þetta er niðurstaðan og henni una allir. En þetta kom á óvart," segir Kristinn, sem sjálfur sækist eftir fyrsta sæti á framboðslistanum í vor. Hann hafði sjálfur látið þau orð falla að hann kysi frekar prófkjör en uppstillingu en tillagan kom hins vegar formlega frá Framsóknarfélögunum í Bolungarvík og í Dalasýslu. Hún fékk einnig stuðning víðar í kjördæminu.

Kristinn segir að prófkjör sé leið flokksins til að höfða til flokksmanna og hleypa þeim að ákvarðanatöku innan flokksins. Hann segir einnig að fyrir síðustu Alþingiskosningar hafi verið stillt upp á listann og kosningaúrslitin hafi verið vonbrigði. Þá hafi flokkurinn fengið tvo þingmenn en ekki þrjá eins og vonast hafi verið til.

Þrír frambjóðendur óska eftir fyrsta sætinu: Kristinn H. Gunnarsson, Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Herdís Sæmundardóttir sem sækist eftir 1.-2. sæti. Kristinn segist hins vegar ekkert smeykur við samkeppnina, nú velji fólkið þann sem að því þyki bestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×