Erlent

Læknuðu sortuæxli með erfðabreyttum blóðkornum

Mönnunum var vart hugað líf lengur en þrjá til sex mánuði en þessi fékk bót meina sinna og gat verið við brúðkaup dóttur sinnar, þvert á það sem hann hafði búist við.
Mönnunum var vart hugað líf lengur en þrjá til sex mánuði en þessi fékk bót meina sinna og gat verið við brúðkaup dóttur sinnar, þvert á það sem hann hafði búist við. MYND/AP

Tveir menn læknuðust af alvarlegu sortuæxli eftir að læknar í Bandaríkjunum gáfu þeim erfðabreytt hvít blóðkorn sem átu upp æxlin. Ekki var búist við því fyrir tilraunina að mennirnir lifðu lengur en þrjá til sex mánuði til viðbótar, svo langt var krabbameinið komið.

Læknar í Bandaríkjunum tóku hvít blóðkorn úr mönnunum, breyttu erfðaefni þeirra og sprautuðu erfðabreyttu blóðkornunum aftur inn í blóð mannanna. Nýja gerð blóðkornanna ræðst af meiri hörku gegn æxlunum og tveimur árum seinna eru mennirnir lausir við húðkrabbameinið. Aðrir krabbameinslæknar hafa einnig sagt erfðabreytt blóðkorn virka vel gegn krabbameini í lungum, brjóstum og lifur.

Þó er enn nokkuð í land til að hægt sé að ábyrgjast lækningu krabbameins með þessari aðferð, því að fimmtán aðrir menn sem tóku þátt í tilrauninni fengu ekki bót meina sinna. Læknar eru þó ánægðir með árangurinn þar sem hann sanni að þessi aðferð geti virkað. Þá geta þeir einhent sér í að bæta aðferðina þannig að hún virki í fleiri tilfellum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×