Innlent

Gæslan tilbúin að beita klippunum ef kallið kemur

Landhelgisgæslan er tilbúin að beita togvíraklippunum um leið og dómsmálaráðherra gefur merki. Landssamband íslenskra útvegsmanna vill að þær verði notaðar á sjóræningjatogara á Reykjaneshrygg.

Verðmæt karfamið eru á Reykjaneshrygg og á hverju vori birtast þar svokölluð sjórængjaskip og veiða við 200 mílna línuna, í trássi við alþjóðasamninga. Átta slík skip sáust á slíkum veiðum þar í sumar en tilraunir íslenskra stjórnvalda til að hindra þælr hafa fram til þessa reynst árangurslitlar. Íslenskir úvegsmenn vilja nú að meiri hörku verði beitt og segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, nærtækast að nota togvíraklippurnar sem Landhelgisgæslan beitti í þorskastríðunum og þóttu eitt skæðasta vopn Íslendinga. Varðskipin drógu klippurnar yfir togvírana og þegar vírarnir festust í klippunum sörguðust þeir í sundur þegar átakið kom á. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að hún sé tilbúin að beita klippunum, komi um það beiðni frá dómsmálaráðherra.

Enn má finna starfsmenn hjá Gæslunni sem tóku þátt í togvíraklippingum. Þeirra á meðal er Halldór Nellett, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs LHG. Á yngri árum hafði hann það hlutverk í þorskastríðunum sem háseti að varpa klippunum frá borði í aðgerðum gegn togurum. Hann segir að kunnátta í notkun þeirra sé enn til staðar.

Togvíraklippur er enn að finna í vopnasafni Gæslunnar og þær eru hafðar um borð í öllum varðskipunum. Georg Lárusson segir að hugsanlega þurfi að brýna klippurnar til að gera þær brúklegar á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×