Innlent

Bæklunarlæknar krefjast úrbóta

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Bæklunarlæknar íhuga að segja sig úr samningi við Tryggingastofnun ef ekki verður komið til móts við kröfur þeirra. Þeir vilja aukið fjárhagslegt svigrúm frá Tryggingastofnun til að sinna sjúklingum sínum eins og þörf krefur.

Sveinbjörn Brandsson, formaður samninganefndar bæklunarlækna, segir læknana orðna langþreytta á að fjármagn sem þeir fá frá Tryggingastofnun dugi ekki til þess að þeir geti sinnt sárþjáðum sjúklingum. Hann segir biðtíma sjúklinga óásættanlega langan og jafnvel þó að læknar standi á bremsunni og takmarki mjög heimsóknir sjúklinga þá klárist kvótinn og margir læknar þurfi nánast að loka stofum sínum í nóvember og desember vegna þess að þá sé kvóti Tryggingastofnunar búinn.

Hann segir sjúklinga sem þjást af stoðkerfissjúkdómum ekki nógu þéttan þrýstihóp til að berjast sjálfur fyrir bættri þjónustu. Fólkið beri harm sinn í hljóði hver í sínu horni en sumir séu þó svo þjáðir af verkjum í hálsi, baki eða fótleggjum að þeir fái vart sofið.

Sveinbjörn segir Tryggingastofnun ekki rækja hlutverk sitt sem skyldi ef hún geti ekki tryggt Íslendingum þá læknisþjónustu sem þeir borgi fyrir með því að greiða skattana sína. Hann hefur sóst eftir fundum með heilbrigðismálaráðherra en staðið hefur á svörum þangað til í morgun. Hann mun funda með ráðherra í næstu viku.

Sveinbjörn segist þó síður vilja segja sig úr samningum við Tryggingastofnun eins og hjartalæknar brugðu á í vor þó af því verði ef engin önnur lausn finnst. Það sé ógreiði við illa haldna sjúklinga að þeyta þeim út um bæ að ná í tilvísanir og beiðnir og vonast hann því til að önnur lausn finnist á fundi hans með heilbrigðisráðherra í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×