Innlent

Skyrið selt beggja vegna Atlantsála

Mikil eftirspurn er eftir íslenskum mjólkurafurðum í Bandaríkjunum og seljast nú um 1,2 tonn af skyri þar í hverri viku á ríflega tvöfalt hærra verði en hér heima. Hinum megin Atlantsála hefur Mjólkursamsalan svo selt sérleyfi á framleiðslu skyrs bæði í Danmörku og Skotlandi og hyggur á frekari landvinninga með skyrið.

Undanfarin ár hefur verið unnið að átaksverkefni um markaðssetningu íslenskra afurða í útlöndum undir nafninu Áform. Það hefur meðal annars þróast út í náið samstarf milli mjólkurvöruframleiðenda hér á landi og verslanakeðjunnar Whole Foods Market í Bandaríkjunum. Hafa íslensk matvæli verið seld í 30 verslanir Whole Foods á austurströnd Bandaríkjanna.

Sala á skyri hófst í september í fyrra og hefur vaxið hröðum skrefum síðan þá að sögn Baldvins Jónssonar, framkvæmdastjóra Áforma. Byrjað hafi verið á því að flytja um 300 lítra af skyri út á viku en nú séu um 1,2 tonn flutt út í viku hverri.

Baldvin segir enn fremur að skyrdósin sé seld á um þrjá dollara, eða 210 krónur í Bandaríkjunum, en til samanburðar kostar dósin um 80 krónur hér á landi.

Við framleiðslu skyrs er fellur til fita úr mjólkinni sem notuð er í smjör. Gerðir hafa verið samningar við Whole Foods um að þeir kaupi og verða 140 tonn af smjöri seld til verslanakeðjunnar á þessu ári.

En það er ekki bara í Bandaríkjunum sem skyr hefur verið selt því MS hefur í gegnum fyrirtækið Agrice selt sérleyfi á framleiðslu skyrs til Danmerkur og hefur sala á því gengið vel að sögn Guðbrands Sigurðssonar, forstjóra MS. Hann bætir við að sams konar samningur hafi verið gerður við mjólkursamsölu í Skotlandi sem sjái fyrir sér að selja skyrið í London. Þá sé fleiri slíkir samningar í burðarliðnum.

Til þess að mæta aukinni eftirspurn eftir íslenskum mjólkurafurðum þarf að auka framleiðslu á mjólk en hún nemur nú um 115 milljónum lítra. Þar af fara nú um tvær milljónir lítra í vörur fyrir erlenda markaði en Guðbrandur segir að stefnt sé að því að þrefalda eða fjórfalda þann lítrafjölda á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×