Erlent

Lula ánægður með efnahaginn

Efnahagur Brasilíu stendur nú styrkum fótum og er óháður erlendri aðstoð. Þetta segir forseti Brasilíu sem hóf í gær baráttu sína fyrir endurkjöri.

Forseti Brasilíu, Luiz Inacio Lula da Silva, er að hefja kosningaherferð sína fyrir forsetakosningarnar sem verða í landinu í október. Hann sagði á kosningafundi í gær að efnahagur Brasilíu stæði nú styrkum fótum og væri hvorki háður Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bandaríkjunum eða öðrum löndum.

Lula, eins og hann er gjarnan kallaður í heimalandinu, nýtur talsverðra vinsælda, ekki síst fyrir það að hann er fæddur og uppalinn í fátæku umhverfi og þykir alþýðlegur.

Í vikunni voru 63 brasilískir þingmenn úr stuðningsmannaflokki Lula da Silva ákærðir fyrir fjárdrátt af almannafé en það virðist ekki hafa haft áhrif á vinsældir hans því fyrstu skoðanakannanir sýna að hann verði jafnvel endurkjörinn strax í fyrstu umferð kosninganna þann fyrsta október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×