Innlent

Myndir af Unni Birnu á stefnumótasíðu

Andlit Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur er notað á rússneskri stefnumótasíðu á internetinu, þar sem hún er sögð frá Úkraínu í leit að eiginmanni.

Síðan heitir Russian love match en þar eiga rússneskar konur að hafa sett inn auglýsingar með myndum þar sem þær leitast eftir því að kynnast mönnum frá öðrum löndum. Fimm myndir af Unni Birnu Vilhjálmsdóttur, ungfrú heimi, eru undir notendanafninu Olena91 og eru einhverjar myndanna frá þáttöku Unnar Birnu í keppninni Ungfrú Ísland. Olena er sögð átján ára stúlka frá Kiev í Úkraínu sem aldrei hefur verið gift. Hún hefur áhuga eldamennsku, dansi, blómum og gæludýrum svo eitthvað sé nefnt. Eins segist hún vera fáguð og ábyrgðarfull kona sem á drauma um að eignast yndislegan eiginmann til að eignast með fjölskyldu með. Eiginmaðurinn tilvonandi á meðal annars að vera skilningsríkur, blíður, sterkur og trúr.

Unnur Birna hafði ekki heyrt um notkun myndanna á þessari síðu þegar NFS náði tali af henni í dag en þetta kom henni ekki á óvart og segir hún alvanalegt að myndir og nafn hennar séu notaðar á ýmsan hátt á netinu. Henni fannst þetta bara fyndið og hló við og ítrekaði að hún væri hamingjusöm og frátekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×