Innlent

Valt yfir umferðareyju á bíl úr gagnstæðri átt

Þrír voru fluttir á slysadeild eftir umferðarslys á Vesturlandsvegi við afleggjarann upp í Grafarholt. Slysið varð á sjöunda tímanum í kvöld. Tildrög slyssins voru þau að tveir bílar á leið til Reykjavíkur lentu í lítilsháttar óhappi með þeim afleiðingum að annar fór út af veginum vinstra megin og valt yfir umferðareyju og upp á veginn hinum megin. Þar lenti hann framan á bíl úr gagnstæðri átt. Tveir voru í bílnum sem valt og einn í hinum bílnum. Hinir slösuðu eru í rannsókn og er líðan þeirra eftir atvikum, að sögn vakthafandi læknis á slysadeild. Að minnsta kosti einn þeirra þarf að fara í aðgerð útaf beinbroti. Talsverðar tafir urðu á umferð en ökumönnum var beint í einfaldri röð um umferðareyju milli akstursstefna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×