Innlent

Nærri 90% Íslendinga nota tölvu og netið

MYND/E.Ól.

Nærri níu af hverjum tíu Íslendingum á aldrinum 16-74 ára nota tölvu og Netið. Þetta kemur fram í könnun Hagstofunnar á notkun landsmanna á tæknibúnaði og Netinu. Engin Evrópuþjóð er með jafn hátt hlutfall nettenginga og Íslendingar.

Könnun Hagstofunnar var gerð í mars síðastliðnum og er sú fimmta sem stofnunin gerir á notkun heimila og einstaklinga hér á landi á tæknibúnaði og Netinu. Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að 84 prósent heimila eru nú með tölvu og 83 prósent eru með internet. Enn fjölgar í hópi þeirra heimila sem eru með hraðvirkar tengingar, til að mynda ADSL, en þeim hefur fjölgað úr 26 prósentum árið 2002 í 85 prósent árið 2006.

Einnig fjölgar þeim enn sem panta eða kaupa sér vörur og þjónustu í gegnum Netið. Árið 2002 höfðu 17 prósent Íslendinga á aldrinum 16-74 ára verslað á netinu, tveimur árum síðar var hlutfallið komið upp í 25 prósent en núna lætur nærri að þriðjungur þjóðarinnar hafi pantað eða keypt vöru á rafrænan hátt.

Þá vekur nokkra athygli að hlutfall þeirra heimila sem hafa farsíma eru orðin fleiri en heimila með sjónvarp. Farsíma er að finna á nánast hverju einasta heimili landsins, eða 98 prósent þeirra, en nítíu og þrjú prósent eru með sjónvarp. Eins og áður er getið eru 84 prósent heimila með tölvu og nánast sama hlutfall með nettengingu, 78 prósent heimila hafa myndbandstæki og á tæplega helming þeirra er að finna stafrænt sjónvarp eða myndlykil.

Rúmlega fjögur af hverjum tíu heimilum eru með svokallaða tónhlöðu, þ.e. MP3 spilara, iPod og þess háttar tæki til að hlaða niður tónlist af netinu, 38 prósent eru með leikjatölvu og lófatölvu er að finna á sjö prósent íslenskra heimila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×