Sport

Corrales og Castillo berjast til þrautar

Fyrsti bardagi Corrales og Castillo var stórkostleg skemmtun og líklega einhver besti bardagi sem sýndur hefur verið í beinni útsendingu í íslensku sjónvarpi
Fyrsti bardagi Corrales og Castillo var stórkostleg skemmtun og líklega einhver besti bardagi sem sýndur hefur verið í beinni útsendingu í íslensku sjónvarpi NordicPhotos/GettyImages

Óhætt er að minna alla áhugamenn um hnefaleika á að fá sér sæti og stilla á Sýn Extra klukkan eitt á laugardagskvöldið, því þá mætast þeir Luis Castillo og Diego Corrales í þriðja sinn í hringnum og herlegheitin verða í beinni útsendingu. Fyrsti bardagi þeirra félaga í fyrravor var einhver ótrúlegasti bardagi síðari ára.

Það var Corrales sem hafði betur í fyrsta bardaganum þegar hann sigraði á rothöggi í tíundu lotu eftir að hafa sjálfur legið á striganum nokkru áður. Þeir Ómar Ragnarsson og Bubbi Morthens fóru gjörsamlega á límingunum í útsendingu Sýnar það vorkvöldið og kölluðu þetta besta bardaga sem þeir hefðu lýst á Sýn síðan útsendingar hófust.

Annar bardaginn hafði ekki sama glans og sá fyrsti, því þar kom í ljós að Castillo reyndist of þungur við vigtun og því gat bardaginn ekki verið um titil. Castillo hafði þó betur í bardaganum og vann nokkuð örugglega. Það verður þó væntanlega ekkert slíkt uppi á teningnum á laugardagskvöldið þegar þeir félagar mætast í þriðja sinn og keppa um það hver er konungur léttvigtarinnar í Las Vegas í Bandaríkjunum.

Bardaginn verður sem fyrr sagði sýndur í beinni útsendingu á Sýn Extra og hefst útsendingin klukkan eitt eftir miðnætti, en hann verður svo sýndur í heild sinni síðar um nóttina á Sýn - eða eftir að útsendingu frá úrslitakeppni NBA lýkur. Það er því ljóst að framundan er sannkölluð draumahelgi á Sýn fyrir íþróttaáhugamenn og fyrirtaks upphitun fyrir HM í knattspyrnu sem hefst um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×