Innlent

Útlán Íbúðalánasjóðs dragast saman

MYND/E.Ól.

Sífellt er erfiðara að selja stórar fasteignir að mati fasteignasala. Útlán Íbúðalánasjóðs dróust saman um þriðjung í apríl. Formaður félags fasteignasala telur hrun á fasteignamarkaði ekki yfirvofandi heldur sé markaðurinn einungis að ná jafnvægi.

Um þriðjungi færri kaupsamningum var þinglýst í apríl en í marsmánuði og hafa sérfræðingar sagt verðlækkun húsnæðis á næsta leyti. Merki þess að tekið sé að hægja á fasteignamarkaði sjást meðal annars í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs sem birt var í morgun. Útlán sjóðsins námu þremur milljörðum króna í apríl en það er um eins og hálfs milljarðs króna lækkun frá marsmánuði. Þrátt fyrir að ekki hafi borist tölur um útlán bankanna í apríl ætlar greiningardeild Glitnis að einnig sé samdráttum í húsnæðislánum þeirra.

Björn Þorri Vigfússon, formaður Félags fasteignasala, segir fasteignasala helst greina samdrátt í sölu á stærri eignum. Markaðurinn sé þó ekki að hrynja heldur telji hann einungis að jafnvægi sé að myndast. Björn á ekki von á neinum verulegum verðlækkunum en segir það þó vera að því gefnu að bankarnir haldi áfram að bjóða hagstæð kjör á íbúðalánum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×