Innlent

Stúlka verður fyrir fólskulegri árás á leið í skóla

Ráðist var á unga stúlku frá Keflavík á Barónsstíg í morgun þegar hún var á leið í Iðnskólann í Reykjavík. Stúlkan tognaði á hálsi, marðist og skrámaðist á baki og er með bitsár á hendi eftir átökin. Faðir stúlkunnar gagnrýnir leiðarkerfi SBK og segir vítavert gáleysi að áætlunarbílar fyrirtækisins hleypi ungmennum úr vögnunum á stoppistöðvum þar sem óreglufólk heldur sig.

Stúlkan ferðast frá Keflavík með áætlunarbíl frá SBK til skóla alla virka daga og fer úr honum á stöppustöð við Hverfisgötu í Reykjavík. Þegar hún var komin áleiðis upp tröppurnar milli Landsbanka og Vínbarsins kom að henni kona á þrítugsaldri og sagði henni að láta sig hafa tösku sem stúlkan var með. Þegar hún neitaðí því greip konan í töskuna og hljóp í burtu. Án þess að hugsa sig um elti Sigríður konuna inn í húsasund sem liggur frá Baronstíg

Þar réðst konan á stúlkuna, reif í hárið á henni og beit hana í höndina. Í því féll stúlkan og lenti á kantsteini og konan lagðist ofan á hana og greip hana kverkataki. Þegar stúlkan fann að hún átti erfitt með að anda sagði hún konunni að skoða innihald töskunnar því þar væri engin verðmæti að finna aðeins blýanta og fleira sem stúlkan ætlaði að nota í skólanum.

Í því komu tveir menn að sem að öllum líkindum þekktu konuna og sögðu henni að fara bara heim það væri ekkert á þessu að græða. Konan sleppti þá takinu og stúlkan komst í burtu. Hún hefur kært atvikið til lögreglu.

Faðir stúlkunnar er mjög óhress með að stoppistöð SBK skuli vera staðsett á Hverfisgötu þar sem þekkt sé að þarna í nágrenninu sé mikið um óreglufólk. Hann segir börn á leið til skóla í stórhættu þarna á morgnana og þakkar fyrir að dóttir sín sé á lífi. Hann segir SBK þurfa að endurskoða leiðarkerfi sitt því svona gangi þetta ekki lengur.

Að sögn Ólafs Guðbergssonar, rekstrarstjóra SBK þá er þetta í fyrsta skipti sem eitthvað þessu líkt hendir farþega þeirra en þeir hafa ekið þessa leið í áratugi. Hann segir stoppustöðina sem um ræðir vera löglega og merkta en að málið verði að sjálfsögðu skoðað þar sem greinilegt sé að Reykjavík sé orðin hættulegri gangandi vegfarendum en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×