Innlent

200 milljóna tap hjá Ríkisútvarpinu

MYND/Gunnar V. Andrésson

Ríkisútvarpið var rekið með tapi upp á tæpar tvö hundruð milljónir á síðasta ári. Eiginfjárstaða fyrirtækisins var rétt yfir núlli í ársbyrjun 2005 en var neikvætt um 186 milljónir í árslok. Þessar upplýsingar koma fram í ársuppgjöri Ríkisútvarpsins sem var gert opinbert í dag.

Tvö hundruð milljóna rekstrarhalli nú er fjórum sinnum meiri en á síðasta ári, en helmingi minni en hann var árið þar áður. Tekjur Ríkisútvarpsins hækkuðu um hundrað milljónir frá síðasta ári, sem var þó minna en vonir stóðu til, þar sem afnotagjöld fengust ekki hækkuð á þessu ári, og er hækkunin því einungis tilkomin vegna hækkaðra auglýsinga- og kostnaðartekna.

Viðvarandi hallarekstur Ríkisútvarpsins orsakast að miklu leyti af minnkandi rauntekjum milli ára og skuldbindinga vegna greiðslna af lífeyrissjóðsláni. Þetta leiðir til þess að fjárfestingar þess hafa verið minni en vonir stóðu til og einnig að eiginfjárstaðan hrapar niður fyrir núllið. Ef, eða þegar, kemur til hlutafélagavæðingar Ríkisútvarpsins, eins og stjórnvöld áforma nú, verður eiginfjárstaða ríkisútvarpsins hins vegar bætt úr Ríkissjóði, segir í greinargerð með ársuppgjörinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×