Innlent

Skemmtiferðaskipið Nordic Dream stendur í ljósum logum

Skemmtiferðaskipið Nordic Dream stendur í ljósum logum utan við Ísafjarðardjúp, en á skipinu eru um eitt þúsund farþegar. Ekki er hér þó um raunverulegar atburð að ræða heldur æfingu. Ráðstefna um samnorræna aðstoð við meiriháttar vá í hverju landi fyrir sig er haldin á Hótel Loftleiðum í dag og á morgun.

Samhliða ráðstefnunni er svokölluð skrifborðsæfing en í henni er gert ráð fyrir að kviknað hafi í skemmtiferðaskipinu Nordic Dream utan við Ísafjarðardjúp. Á skipinu eru 1000 farþegar og 700 manna áhöfn. Mikill fjöldi fólks um borð er slasað eða látið og eldar loga frá sjólínu upp á 8. hæð skipsins. Vettvangs- og aðgerðastjórn á Ísfirði taka þátt í æfingunni auk Samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð sem er fullmönnuð.

Vegna fjölda slasaðra koma bjargir víða að og meðal annars er gert ráð fyrir að mikill fjöldi slasaðra yrði sendur erlendis kæmi til svo stórs slyss og er það meðal þess sem æft er á æfingunni. Þessi samnorræna æfing stendur yfir í dag og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×