Innlent

Verðtrygging er lífeyriskerfinu nauðsyn

Lífeyriskerfið færi á haus ef verðtryggingin yrði afnumin segir framkvæmdastjóri Landssambanda lífeyrissjóða. Skiptar skoðanir eru um málið innan verkalýðshreyfingarinnar.

Fyrir helgi spurði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka og formaður Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, hvort ekki væri rétt að afnema verðtrygginguna.

Þetta sagði Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins í 1.maí ávarpi sínu á Ísafirði í gær vera árás á launafólk. Bankarnir vilji komast í fjármuni lífeyrissjóðanna óverðtryggða til að sýsla með þá.

Eignir lífeyrissjóðanna eru nú um 1.200 milljarðar króna, að stórum hluta bundið í verðtryggðum eignum. Samtök atvinnulífsins eru fylgjandi verðtryggingu. Hvorki Alþýðusambandið né BSRB hafa sérstaka skoðun á því hvort viðhalda eigi verðtryggingu á fjármagn.

Málið hefur þó verið mikið rætt innan verkalýðshreyfingarinnar og tvö ólík sjónarmið togast þar á. Annarsvegar eru þeir sem telja hag launamanna betur borgið án verðtryggingar á lánsfé enda eru laun ekki lengur verðtryggð. Síðan eru hinir sem telja að afnám verðtryggingar gæti ógnað vexti og viðgangi lífeyrissjóðanna í landinu. Hagfræðistofnun Háskólans skoðaði málið fyrir Landssamtök lífeyrissjóða í hittifyrra.

Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða telur hugmyndir um afnám verðtryggingar vanhugsaðar og að þær gætu keyrt lífeyrissjóðakerfið um koll ef af yrði. Lífeyrisgreiðslur séu vísitölubundnar lögum samkvæmt og hið sama verði að gilda um eignir sjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×