Innlent

Stúdentar ekki sáttir við orð Runólfs á Bifröst

MYND/Stefán Karlsson

Stúdentaráð Háskóla Íslands og Félag Stúdenta við Háskólann á Akureyri mótmæla orðum Runólfs Ágústssonar, rektors á Bifröst og segja skólagjöld hvorki forsendu né skilyrði fyrir því að háskólar nái í fremstu röð.

Í ályktun frá félögunum segir að varast beri að sækja fyrirmyndir um of til Bandaríkjanna heldur ættu stjórnvöld að líta sér nær, til Norðurlandanna þar sem ríkisreknir háskólar skapi traustan grundvöll undir virkt þekkingarþjóðfélag og sjö þeirra séu á lista yfir bestu háskóla í heimi.

Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Stúdentaráðs HÍ, varar við að einblínt sé á stöðu íslenskra háskóla á listum yfir bestu háskóla í heimi, mikill vöxtur sé í íslenskum háskólum, það sýni ör fjölgun í meistara- og doktorsnámi á Íslandi. Hann segir mikilvægt að skjóta styrkari stoðum undir framhaldsnám til að efla þekkingarþjóðfélag á Íslandi.

Sigurður bendir einnig á að ef rýnt er í fjármögnun skólastarfs á Bifröst og annarra háskóla sem innheimta skólagjöld af nemendum sínum, komi í ljós að þeir háskólar sem eigi að heita einkareknir fái launfjárveitingar í gegnum lánasjóð íslenskra námsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×