Innlent

Undirbúningur álvers í fullum gangi

Höfnin í Helguvík.
Höfnin í Helguvík.
Undirbúningur að byggingu álvers í Helguvík er í fullum gangi, segir einn æðsti yfirmaður Norðuráls á Íslandi. Reykjaneshöfn og Norðurál sömdu í dag um hafnarþjónustu og leigu landspildu undir álver.

Reykjaneshöfn, sem er í eigu Reykjanesbæjar, sér Norðuráli fyrir nauðsynlegri hafnaraðstöðu. Ráðast verður í umbætur á höfninni og reisa nýjan 200 metra langan viðlegukant en fyrir er 150 metra viðlegukantur sem verður einnig notaður. Alls verður reist 30 þúsund fermetra athafnasvæði í tengslum við álverið á hafnarsvæðinu.

Samkomulag Norðuráls og Reykjaneshafnar gerir einnig ráð fyrir að Norðurál leigi landspildu nálægt höfninni. Auk þess freistar fyrirtækið þess að leigja landsvæði af Garði og utanríkisráðuneytinu. Ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til þess hvar á Helguvíkursvæðinu álverið rís. Það ræðst meðal annars af því hversu stórt landsvæði fyrirtækið fær og hverjar niðurstöður umhverfismats verða. Gert er ráð fyrir að niðurstöður umhverfismatsins liggi fyrir snemma á næsta ári.

Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, segir þetta til marks um að undirbúningur að byggingu álvers sé í fullum gangi. Vilji er fyrir því að flýta framkvæmdum til að koma til móts við óskir heimamanna í þá veru eftir að ljóst varð að Bandaríkjaför væri á förum. Það ræðst þó af því hvenær orka fæst afhent. Viðræður eru nú í gangi við Orkuveitu Reykjavíkur um að útvega hluta þeirrar orku en áður hefur verið gengið frá samningum við Hitaveitu Suðurnesja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×