Innlent

Ekkert gefið upp

Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fer fyrir viðræðunefnd Bandaríkjamanna.
Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fer fyrir viðræðunefnd Bandaríkjamanna. MYND/AP

Ekkert er gefið upp um gang viðræðna Bandaríkjamanna og Íslendinga um varnarsamninginn sem framhaldið var í utanríkisráðuneytinu í dag en þeim verður haldið áfram fljótlega. Utanríkismálaráðherra gerir utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir viðræðunum á laugardag.

Fyrir fundinn í dag vildu Albert Jónsson, sem fer fyrir íslensku viðræðunefndinni, og Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi sem fer fyrir bandarísku nefndinni, ekki gera grein fyrir gangi viðræðnanna. Búist var þó við að eitthvað kæmi fram frá báðum aðilum eftir fundinn í dag.

Viðræðum lauk síðan um klukkan hálf fjögur í dag og tjáðu fulltrúar nefndanna sig ekki um gang mála. Skömmu síðar sendi utanríkisráðuneytið frá sér stuttorða fréttatilkynningu um málið. Þar segir að á fundum í gær og í dag hafi aðallega verið rætt um drög að nýrri varnaráætlun fyrir Ísland sem Evrópuherstjórn Bandaríkjanna hefur gert, en Ísland er í umdæmi hennar.

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, mun gera utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir viðræðunum á fundi nefndarinnar á laugardag. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að viðræðunum verði haldið áfram fljótlega.

Varnarliðið hefur sent frá sér áætlun um hvernig staðið verði að samdrætti í þjónustu við varnarliðsmenn og lokun þjónustustofnana. Samkvæmt henni munu sjö þjónustustöðvar loka strax í maímánuði og fimm í júní. Í maí mun t.d. útvarpsstöð vallarins verða lokað en það síðasta sem loka mun samkvæmt þessari áætlun, er pósthúsið. Því verður lokað hinn 28. september, enda verður þá fáir eða engir eftir í herstöðinni til að senda bréf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×