Innlent

Biskup vísar í ábyrgð valnefndar

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Biskup vísaði í ábyrgð valnefndar við val á sóknarpresti í Keflavík í ávarpi sínu á prestastefnu í gær. Ósátt sóknarbörn Keflavíkursóknar gerðu aðsúg að biskupi og prestum þar sem þeir gengu í fullum skrúða inn í Keflavíkurkirkju þar sem prestastefna fór fram.

Biskup sagði valnefnd hafa umboð sóknarbarna til þess að velja nýjan sóknarprest og að þessi áhrif sóknarbarna væru einn af hornsteinum lútherstrúarinnar. Hann sagði mikilvægt að þetta umboð og þessi ábyrgð, sem falin væri valnefndum, væri virt og því treyst.

"Heill séra Sigfúsi, hann lengi lifi", var meðal annars hrópað að prestum, við setningu prestastefnu í Keflavíkurkirkju undir kvöld í gærkvöldi. Hópur fólks stóð við dyr Keflavíkurkirkju til að mótmæla ráðningu séra Skúla Ólafssonar í stöðu sóknarprests í Keflavík, þrátt fyrir fjölda áskorana sóknarbarna um að séra Sigfús Ingvarsson yrði ráðinn.

Mótmælendur héldu á spjöldum með áletrunum þar að lútandi, þar sem meðal annars mátti sjá orðin: Mistök, og sumir gerðu hróp að prestum og biskupi. Einnig höfðu sóknarbörnin mótmælt með undirskriftalista enda margir ósáttir við að gengið væri fram hjá starfandi aðstoðarsóknarpresti til þrettán ára við val á sóknarpresti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×