Innlent

Framsókn sækir fram í Fjarðabyggð

Framsóknarmenn sækja í sig veðrið í Fjarðabyggð samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir NFS. Þetta er fyrsta jákvæða könnunin fyrir Framsókn úr borgarafundaröð NFS.

Samkvæmt könnuninni bætir Framsókn við sig einum manni, sem og Sjálfstæðisflokkur, en Fjarðalistinn með listabókstafinn L tapar einum manni, og Biðlistinn með bókstafinn Á tapar nær öllu sínu fylgi.

Framsóknarflokkur og Fjarðalisti hafa verið í meirihluta í Fjarðabyggð. Sá meirihluti heldur, með því að einn maður færist frá Fjarðalistanum yfir til Framsóknar. Þó er erfitt að tala um að meirihlutinn haldi því nú bætast þrjú ný sveitarfélög við Fjarðabyggðina, Mjóifjörður, Stöðvarfjörður og Fáskrúðsfjörður og því er sveitarfélagið gjörbreytt. Þar af voru Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður Framsóknarvígi og því eðlilegt að staða Framsóknar batni þegar þessi sveitarfélög bætast inn í Fjarðabyggð.

Framsókn hefur tapað fylgi í hinum þremur könnununum sem gerðar hafa verið fyrir borgarafundaröð NFS, á Akranesi, í Árborg og á Akureyri. Samfylking tapaði fylgi í Árborg en heldur annars velli. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig fylgi á öllum stöðum.

Næsti borgarafundur NFS verður haldinn í Ísafjarðarbæ á þriðjudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×