Innlent

Línuhönnun fær Kuðunginn

Það eru hreinar línur hjá ráðgjafa- og verkfræðistofunni Línuhönnun, en fyrirtækið hlaut í gær viðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi í verkefnum sínum. Verðlaunin, sem kölluð eru  „Kuðungurinn", voru afhent í tengslum við hátíðar- og fræðslufund um endurnýtingar- og úrvinnslumál sem fram fór á Grand Hótel í tilefni Dags umhverfisins. Og það var umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, sem afhenti forsvarsmönnum Línuhönnunar hinn forláta verðlaunagrip.

Verkfræðistofan Línuhönnun var stofnuð árið 1979 en snemma á níunda áratugnum fór fyrirtækið einnig að bjóða upp á viðhaldsráðgjöf. Mörg þekkt hús hafa verið á meðal viðfangsefna Línuhönnunnar, þar á meðal aðalbygging Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnið og Bessastaðir.

Fyrr á þessu ári fékk Línuhönnun umhverfisvottun samkvæmt svokölluðum ISO 14 þúsund og einum staðli en fyrirtæki með slíka vottun hefur farið í gegnum ákveðið ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×