Innlent

180 dauðsföll hér á landi árlega vegna mistaka á Landspítala-háskólasjúkrahúsi

MYND/Haraldur Jónasson

Gera má ráð fyrir að um 180 dauðsföll eigi sér stað hér á landi árlega vegna mistaka á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, samkvæmt niðurstöðum úr erlendum rannsóknum. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram þingsályktunartillögu á Alþingi í gær, þar sem lagt er til að gerð verði úttekt á öryggi og mistökum í heilbrigðiskerfinu. Séu niðurstöður erlendra rannsókna á mistökum í heilbrigðisþjónustu heimfærðar á Ísland, bendir allt til þess að mannleg mistök eigi sér einnig stað hér á landi.

Miðað við höfðatölu má gera ráð fyrir að um 180 dauðsföll eigi sér stað vegna mistaka árlega, þar af um 90 sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Þá hefur Landlæknir bent á að samkvæmt tölfræði erlendra rannsókna megi ætla að um 3.000 óhöpp eða misfellur hafi átt sér stað á síðasta ári og þar af hafi 600 þessarra óhappa verið alvarleg.

Ástæður fyrir mistökum í heilbrigðiskerfinu eru taldar margvíslegar svo sem vegna manneklu, aðgengis að þjónustu, ónægrar þekkingar, rangrar meðferðar eða jafnvel vegna óhapps. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þrátt fyrir að íslenska heilbriðgðiskerfið sé almennt talið vera gott þá eigi mistök sem þessi sér stað, hér á landi líkt og annars staðar. Aðalmálið sé að skilgreina vandann og leita lausna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×