Innlent

Nýtt ófriðarbál í uppsiglingu um fjölmiðla

Stjórnarandstæðingar á Alþingi segja að nýtt ófriðarbál um fjölmiðla sé í uppsiglingu. Þeir krefjast þess að ríkisstjórnin kalli frumvarp sitt um Ríkisútvarpið til baka.

Mörður Árnason, Samfylkingunni, greindi frá því við upphaf þingfundar í dag að stjórnarmeirihlutinn hefði um morguninn hafnað þeirri ósk stjórnarandstöðunnar að frumvarpið um Ríkisútvarpið yrði kallað til baka og tekið til skoðunar í sumar. Hvatti Mörður stjórnina til að endurskoða afstöðu sína í ljósi yfirlýsingar Sigurðar Líndals prófessors um að vafi léki á því að nýtt fjölmiðlafrumvarp stæðist jafnræðisreglu stjórnarskrár og skoða þyrfti bæði frumvörpin í samhengi. Björgvin G. Sigurðsson sagði að fjölmiðlafrumvarpið nýja varpaði ljósi á það klúður og pólitíska klastur sem Rúv-frumvarpið væri. Hann sagði að með þessari framgöngu væru menntamálaráðherra og stjórnarmeirihlutinn að blása til nýs ófriðar um fjölmiðlamálið.

Fram kom í umræðunni að í gær hefði verið bætt inn nýrri grein í fjölmiðlafrumvarpið sem meinaði Ríkisútvarpinu að eiga hlut í öðrum fjölmiðlum. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, greindi frá áliti sem Páll Hreinsson lagaprófessor, kynnti á fundi nefndarinnar í morgun um breytinguna, þar sem hann teldi að með henni væri stoppað upp í þann leka sem hugsanlega var gagnvart jafnræðisákvæði stjórnarskrár.

Atli Gíslason varaþingmaður og hæstaréttarlögmaður varaði þingheim við hættu á lagasetningarmistökum með RÚV-frumvarpinu. Ekki væri unnt að standa að því að samþykkja lög sem kölluðu síðan á deilur fyrir dómstólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×