Innlent

Rennslið þriðjungur þess sem mest var

Mjög hefur dregið úr hlaupinu í Skaftá og er rennsli hennar nú aðeins rúmlega þriðjungur þess sem það var þegar hlaupið náði hámarki. Stærsta Skaftárhlaup sem mælst hefur er nú í rénun og má gera ráð fyrir að rennsli verði komið í meðallag eftir viku eða svo.

Rennsli í Eldvatni var komið í 221 rúmmetra á sekúndu um klukkan tólf en mest fór rennslið í 630 rúmmetra á sekúndu. Vatnshæð í Eldvatni hefur lækkað og er komið undir þrjá metra, hefur lækkað um einn metra síðasta sólarhringinn

Þrátt fyrir að rennsli minnki og yfirborð í ám lækki er sögu Skaftárhlaups þó ekki lokið þetta árið. Snorri Zophoníasson, vatnamælingamaður Orkustofnunar, var við vatnamælingar í morgun. Hann segir að mikið vatn hafi farið niður í jörðina og það eigi eftir að koma upp á yfirborðið á næstu dögum. Það hefur farið í grunnvatn og kemur fram í lindum í Meðallandi, líklega eftir viku til tíu daga. Snorri segir að víða hafi vatnsyfirborð í jörðu hækkað um einn til tvo metra þetta vatn eigi eftir að koma fram.

Vatnshæð í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur er komið í 204 sentímetra og rennsli undir hundrað rúmmetra á sekúndu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×