Innlent

Var Alþingi blekkt?

Beittu menn vísvitandi blekkingum? spurði formaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag, þegar hún rifjaði upp rök sem færð voru fyrir því að ekki væri unnt að skilja grunnnetið frá þegar Landssíminn var einkavæddur. Forsætisráðherra svaraði að allir ráðgjafar hefðu eindregið mælt með því að fyrirtækið yrði selt í heilu lagi.

Viðræður sem nú fara fram um sölu grunnets Símans til Orkuveitu Reykjavíkur urðu tilefni fyrirspurnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Halldórs Ásgrímssonar. Hún rifjaði það upp að stjórnarandstaðan hefði lagt til að grunnnetið yrði skilið frá og ekki selt. Ráðherrar og einkavæðingarnefnd hefðu þá lagt fram þrennskonar rök; það væri tæknilega séð varla gerlegt, það stangaðist á við lög ESB um samkeppni í rekstri grunneta og mun lægra verð myndi fást fyir Símann. Hún sagði að svo virtist sem ekkert af því stæðist sem sagt hefði verið fyrir nokkrum mánuðum. Sú spurning hlyti að vakna hvort menn hefðu beitt vísvitandi blekkingum. Forsætisráðherra sagði að ráðgjafar, sem ríkisstjórnin leitaði til, hefðu mælt með því að fyrirtækið væri selt í heilu lagi. Kvaðst hann hafa sannfæringu fyrir því að það verð sem fékkst fyrir Símann hefði aldrei fengist nema þannig hefði verið staðið að sölunni. Það hefði að sjálfsögðu verið markmið ríkisstjórnarinnar að fá sem mest verð fyrir Símann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×