Innlent

RÚV hf. skref til einkavæðingar

Frumvarpið um Ríkisútvarpið er ákveðið skref til einkavæðingar þess, sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um leið og hann sagði "já" í atkvæðagreiðslu í þinginu nú síðdegis. Pétur, sem lagt hefur fram frumvarp um að selja RÚV, sagði að menn yrðu jafnhissa á því í framtíðinni að opinberir starfsmenn stunduðu fréttamennsku eins og menn væru hissa á því í dag að opinbera starfsmenn hefði þurft til að stunda bankastarfsemi.

Stjórnarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og taka upp nefskatt í stað afnotagjalda var vísað til þriðju og síðustu umræðu nú síðdegis. Stjórnarandstaðan kaus að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna í ljósi samkomulags um að málið færið til umfjöllunar á ný í þingnefnd fyrir lokaumræðuna. Einn stjórnarliði, Kristinn H. Gunnarsson, lýsti andstöðu sinni og kvaðst ætla að greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Hann sagði auk þess hlutafélagsformið sérstaklega valið til að koma Ríkisútvarpinu í söluhæfan búning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×