Innlent

Ökukennslusvæði byggt á Akranesi

Frá Akranesi
Frá Akranesi Mynd/GVA.

Ökukennslusvæði verður byggt á Akranesi en þar munu ökunemar og þeir sem vilja auka ökuleikni sína geta æft sig á sérútbúnu svæði. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í dag.

Ökukennslusvæðið er hugsað fyrir alla landsmenn sem mikilvægur liður í ökunámi. Svæðið verður sérútbúið svo ökunemar munu eiga þess kost að æfa sig í akstri við allar mögulegar ökuaðstæður, svo sem í hálku og í akstri á malarvegi. Ökuæfingarsvæði sem þetta hefur gefið góða raun á Norðurlöndunum en þar eru 114 æfingarsvæði fyrir ökumenn. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Guðbrandur Bogason, formaður ökukennararfélags Íslands og Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri á Akranesi, undirrituðu viljayfirlýsingu til byggingar ökukennslusvæðisins í dag. Vonir standa til að það muni skýrast innan árs hvenær hægt verður að hefja framkvæmdir en talið er að þær muni kosta um 200 milljónir króna. Guðmundur Páll segir það ánægjulegt að Akranesbær fái að koma að verkefninu. Hann segir að ökukennslusvæðið verði mikilvægt viðbót við alla ökukennslu á Íslandi og liður í því að gera ökumenn hæfari í akstri við hinar ýmsu aðstæður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×