Innlent

Telur skuggagjald vænlegri leið en veggjald fyrir ný göng

Úr Hvalfjarðargöngum.
Úr Hvalfjarðargöngum. MYND/Pjetur

Stjórnarformaður Spalar segir að ráðist verði í ný Hvalfjarðargöng á næstu fjórum til fimm árum til að anna þeirri auknu umferð sem hefur verið um göngin. Hann telur skuggagjald vænlegri leið en veggjald fyrir hin nýju göng. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari lækkun veggjalda í núverandi göng.

Tíu milljónasti bíllinn fór um Hvalfjarðargöngin í gær og er það um tíu árum fyrr en áætlanir Spalar, sem rekur göngin, gerðu ráð fyrir.  Hefur umferð um göngin vaxið jafnt og þétt frá því að þau voru opnuð fyrir tæpum átta árum. Göngin eru því að nálgast þau mörk sín sem eru um 5000 bílar á sólarhring að meðaltali á ári.

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, segir erfitt að segja til um hvers vegna umferðin hafi aukist mun hraðar en spár gerðu ráð fyrir en segir ljóst út frá þessu að leggja þurfi ný göng. Hann telji að þörf sé á þeim á næstu fjórum eða fimm árum en bendir jafnframt á að þá þurfi einnig að breikka vegi beggja vegna fjarðarins til að anna umferðinni.

Gísli segir að Spölur hafi rætt við Vegagerðina um undirbúning að tvöföldun ganganna en gert er ráð fyrir að þau yrðu austan við núverandi göng, það er innar í firðinum. Vegagerðin vinni að ýmsum undirbúningi sem hugsanlega gæti verið lokið í ár og þá væri hægt að hefjast handa við hönnun ganganna.

Gísli telur skuggagjald vænlegri leið en veggjald í hinum nýju göngum, en skuggagjald er gjald sem ríkið greiðir framkvæmdaaðila fyrir hvern bíl sem ekur um tiltkeinn veg. Gísli segir stjórnvöld eftir að ákveða hvernig fjármögnunin fari fram en væntanlega verði sú ákvörðun nátengd ákvörðun um fjármögnun Sundabrautar.

Í ljós aukinnar umferðar um Hvalfjarðargöngin vakna spurningar hvort ekki eigi að lækka veggjöldin. Gísli segir enga ákvörðun hafa verið tekna um það. Gjöldin hafi verið lækkuð síðast í apríl í fyrra en reiknað sé með að búið verði að greiða fyrir göngin árið 1918. Hann útilokar þó ekki að gjöldin verði lækkuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×