Innlent

Ríkið lækki álögur á bensíni

Neytendasamtökin vilja að ríkið lækki álögur sínar á bensín og olíu en hækkun bensínsverði að undaförnu þýðir í það minnsta 660 milljóna króna aukningu á virðisaukaskattstekjum af eldsneyti. Á heimasíðu Neytendasamtakanna krefjast samtökin þess að ríkið lækki álögur sínar á eldsneyti en þær eru hærri en almennt gerist í löndunum í kringum okkur. Fram hefur komið að ástæðan fyrir háu heimsmarkaðsverði á olíu sé annars vegar vegna ótryggs ástands í Íran og fleiri löndum og því telja Neytendasamtökin ástæðu til að vona að verðið muni lækka í framtíðinni. Því ætti ríkinu mati Neytendasamtakanna að vera óhætt að lækka álögur á bensín og olíu.

En hversu hár er hlutur ríkisins af bensínverði? Lægsta verð á lítra af 95 oktana bensíni er nú 121 króna. Af hverjum seldum lítra fær ríkið um það bil 66 krónur. Þær sundurliðast þannig að vörugjald, óskilgreint er 9,28 krónur, sérstakt vörugjald eða svokallaður vegskattur er 32,95 krónur og virðisaukaskatturinn er rúmar 23,8 krónur sem samtals gera rúmar 66 krónur eða rúmlega 54% af verði hvers bensínlítra.

Á hverju ári seljast um það bil 200 milljónir lítra af bensíni. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur reiknað út að ef bensínverð helst óbreytt næsta árið þá munu tekjur ríkissjóðs vegna hækkananna verða 660 milljónum króna meiri en í fyrra sem eingöngu eru tilkomnar vegna aukins virðisakaskatts. Þá hefur FÍB bent á að virðisaukaskatturinn er lagður á vörugjaldið og vegskattinn þannig að um er að ræða skatt á skatt. Neytendasamtökin taka í sama streng og FÍB og vilja að komið verði til móts við neytendur með því að lækka álögurnar og sem dæmi má taka að ef virðisaukaskatturinn yrði lækkaður úr 24,5 prósentum í 14 prósent myndi það eitt þýða um 10 króna lækkun á verði bensínlítrans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×