Innlent

Einn Íslendinganna aðili að öðru stóru fíkniefnamáli

MYND/Vísir

Einn Íslendinganna þriggja sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald á föstudaginn langa vegna umfangsmikils fíkniefnamáls kom líka við sögu í stóru fíkniefnamáli árið 2004 en var ekki ákærður.

Síðla sumars árið 2004 fundust átta kíló af amfetamíni falin í loftpressu sem flutt var inn með fraktskipinu Dettifossi frá Hollandi. Níu manns sátu í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna málsins en fjórum þeirra var sleppt. Einn Íslendingur var framseldur frá Hollandi vegna málsins en hann og annar Íslendingur voru handteknir ytra. Sá síðarnefndi var ekki framseldur þar sem hann var ekki talinn tengjast innflutningnum en við húsleit í Hollandi þar sem hann dvaldi fannst eitt kíló af amfetamíni og tuttugu kíló af maríjúana. Hollenska lögreglan hafði það mál til rannsóknar en ásamt Íslendingnum tengdist málinu Hollendingur sem bjó í íbúðinni sem húsleitin var gerð í.

Nú hefur Íslendingurinn hins vegar verið handtekinn vegna málsins sem upp komst á skírdag en þar fundust, samkvæmt heimildum, á milli tuttugu og þrjátíu kíló af amfetamíni og hassi. Óstaðfestar heimildir herma að Hollendingur sem nú situr í haldi íslensku lögreglunnar sé sá sem Íslendingurinn bjó hjá á sínum tíma úti í Hollandi. Íslendingurinn og Hollendingurinn, sem hvorki voru framseldir né ákærðir í málinu 2004, sitja því nú í gæsluvarðhaldi. Íslendingurinn sem um ræðir var hins vegar framseldur hingað til lands á sínum tíma vegna hvarfs Valgeirs Víðissonar.

Lögreglan í Reykjavík fer með rannsókn málsins sem nú er til rannsóknar eftir að fíkniefni fundust falin í bensíntanki á BMW-bifreið. Lögreglan kom að þremur mannanna þar sem þeir voru að tæma fíkniefnin úr bíl í iðnaðarhúsi á Höfðanum í Reykjavík á fimmtudagskvöld en fjórði maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi er eigandi bílsins.

Einn mannanna var dæmdur í níu ára fangelsi árið 2000 fyrir þátt sinn í stóra fíknaefnamálinu svokallaða og var hann því á reynslulausn eftir að hann hafði afplánað um helming fangelsisvistarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×