Innlent

66 urðu að endurgreiða tryggingafélögum

66 ökumenn þurftu að greiða samanlagt tuttugu milljónir króna til tryggingarfélaganna á síðasta ári vegna tjóns sem þeir ollu í umferðinni.

Sá ökumaður sem þurfti að greiða tryggingarfélagi hæsta upphæð vegna umferðarslyss mátti punga út einni komma átta milljón króna. Næstu tveir máttu greiða sautján hundruð þúsund krónur hvor um sig og alls máttu níu ökumenn greiða tryggingarfélögunum hálfa milljón eða meira.

Tryggingafélögin geta krafið ökumenn um bætur ef þeir valda tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi og kveður endurkröfunefnd upp úr um réttmæti kröfunnar. Á síðasta ári kröfðust tryggingarfélögin greiðslu í sjötíu málum og voru 66 þeirra samþykkt.

Flestir sem urðu að endurgreiða tryggingafélagi bætur urðu að gera það vegna ölvunar við akstur, alls 49. Tólf ollu tjóni þegar þeir voru réttindalausir í umferðinni, þrír ollu tjóni af ásetningi og þrír með glæfraakstri. Þá var einn undir áhrifum lyfja og því endurgreiðsluskyldur. Þetta er meiri tala en nemur fjölda mála en það skýrist af því að stundum liggja fleiri en ein ástæða að baki endurkröfu.

Þrír af hverjum fjórum tjónvöldum sem verða að gera upp við tryggingafélag eru karlar og tveir af hverjum fimm voru 25 ára eða yngri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×