Innlent

Mótmæla stóriðjuframkvæmdum

Enn fjölgar þeim hópum í samfélaginu sem eru á móti stóriðjuframkvæmdum. Samtök ferðaþjónustunnar og unglingar í Austurbæjarskóla hafa nú stigið fram gegn stóriðjuframkvæmdum stjórnvalda.

Samtök ferðaþjónustunnar skora á iðnaðarráðherra að veita ekki rannsóknarleyfi til virkjunar jarðhita eða vatnsafls að Fjallabaki, í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna nýverið. Samtökin telja að framkvæmdir sem fylgja rannsóknunum geti skaðað hagsmuni ferðaþjónustunnar á svæðinu. Óskar Helgi Guðjónsson, framkvæmdarstjóri Ferðaskrifstofunnar Ultima Thule, segir að Samtök ferðaþjónustunnar álíti svæðið sem um ræðir gríðarlega mikilvægt með ferðaþjónustu í huga. Svæðið sé óspillt og verðmæti svæðisins liggi í því. Óskar segir mikilvægt að ekki verði farið í neinar framkvæmdir á svæðinu nema það sé alveg á hreinu hver ávinningurinn yrði.

Unglingar í félagsmiðstöðvarinnar 101, í Austurbæjarskóla, vilja að stjórnvöld kynni allar hliðar stóriðjuframkvæmda fyrir þjóðinni, ekki bara jákvæðu hliðarnar. Unglingarnir vilja að stjórnvöld íhugi aðra kosti til atvinnusköpunar fyrir fólkið í landinu. Kolfinna Nikulásdóttir og Nanna Elísa Jakobsdóttir eru báðar í nemendaráði Austurbæjarskóla. Þær hafa stigið fram fyrir hönd samnema sinna og vakið athygli á málaflokknum. Þær segja að mikil andstaða sé meðal samnema þeirra á stóriðjuframkvæmdum. Þá sé mikilvægt að stjórnvöld kynni allar hliðar málsins fyrir fólkinu í landinu ekki bara þær jákvæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×