Innlent

Fiskinn minn, nammi nammi namm

MYND/E.Ól.

Íslendingar borða þriðjungi minna af fiski nú en fyrir sjö árum. Margt ungt fólk sniðgengur fisk í matargerð. Þetta kom fram á fiskiþingi í dag.

Emilía Marteinsdóttir, deildarstjóri hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, segir minnkandi fiskneyslu aðallega stafa af breyttu neyslumunstri í dag. Fólk sæki í annars konar mat en áður eftir að pizzur og pasta héldu innreið sína á íslenskan matvælamarkað. Einnig sé máltíðamynstur Íslendinga öðru vísi, fjölskyldur borði ekki saman í hádeginu í sama mæli og æ minna sé um að fólk setjist saman að heimaeldaðri máltíð á kvöldin.

Hún segir margt ungt fólk nánast vera smeykt við að elda fisk, það haldi að það sé flókið og taki langan tíma. Í framhaldi af þessum niðurstöðum mun Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins gera viðamikla könnun meðal ungs fólks á ástæðum andúðarinnar á fiskeldamennsku og í framhaldi af því verði skipulögð herferð til þess að snúa þessari þróun við, með kynningu og markaðssetningu.

Pétur Baldursson, formaður Fiskifélags Íslands, segir Íslendinga þurfa að huga betur að umhverfismerkingu fiskafurða. Hann segir neytendur á meginlandi Evrópu í vaxandi mæli huga að því að matvara sé framleidd með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×