Innlent

Kuldaboli hindrar ekki þjóðdans

Þjóðlega klæddur hópur ungmenna lét ekki norðangarra aftra sér frá því að dansa þjóðdansa utanhúss víða um borg í dag. Hér voru á ferðinni nemendur Kvennaskólans í Reykjavík sem héldu sinn árlega Peysufatadag en hann má rekja til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Kvennaskólinn er einn elsti skóli landsins, stofnaður árið 1874, en það var árið 1922, fljótlega eftir að Ísland fékk fullveldi, sem kvennaskólameyjar tóku upp þennan sið að klæðast þjóðlegum búningi. Að sögn Vilhelmínu Salbergsdóttur, skriftstofustjóra skólans, var upphafið það að fólk hafði af því áhyggjur að skólastúlkur væru farnar að velja dönsk föt fram yfir íslensk og var því ákveðið að þær mættu allar í íslenskum búningi ákveðinn dag. Þegar svo piltar fengu aðgang að skólanum fyrir nærri þrjátíu árum þótti sjálfsagt að þeir klæddust einnig íslenskum búningi á Peysufatadaginn. Um svipað leyti gerðist það að þjóðlega klæddir nemendur fóru að gera meira úr deginum með því að fara út fyrir skólalóðina syngjandi og dansandi og í dag mátti sjá þennan fríða hóp skemmta sér og öðrum meðal annars á elliheimilinu Grund og Landakoti sem og á Ingólfstorgi, í Ráðhúsinu og í Kringlunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×