Innlent

Óeðlilegt að námsmönnum sé ekki ætlaður aðgangur að háskólaráðum

MYND/E.Ól.

Bandalag íslenskra námsmanna segir óeðlilegt að námsmönnum sé ekki ætlaður aðgangur að háskólaráðum samkvæmt frumvarpi til háskólalaga sem nú liggur fyrir á Alþingi.

Í flestum háskólum landsins sitja nemendur í háskólaráðum, alls staðar nema í Háskólanum í Reykjavík. Samkvæmt frumvarpi menntamálaráðherra um háskóla, verður háskólum ekki skylt að veita nemendum aðgang að háskólaráðum. Haukur Logi Karlsson, formaður BÍSN, segir þetta sérstaklega óeðlilegt í ljósi þess að námsmenn eru mjög mikilvægur hagsmunahópur innan háskóla. Hann telur sjálfsagt og eðlilegt að rödd nemenda fái að heyrast þar sem stefnumótun fari fram um framtíð skólanna og þar með aðbúnað þeirra sjálfra og náms þeirra.

Hann segir þetta ganga í berhögg við Bologna-ferli Evrópusambandsins um skipulag háskóla, sem Ísland hefur skuldbundið sig til að taka þátt í. Hann segir ekki hægt að neyða Ísland til að taka upp þessar reglur ef ekki er vilji til þess en segir undarlegt að stjórnvöld skuldbindi sig í ferlinu en fari síðan ekki eftir reglum og tilmælum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×