Innlent

Aðstandendur og vistmenn styðja aðgerðir

Frá aðgerðum starfsfólks í síðustu viku.
Frá aðgerðum starfsfólks í síðustu viku.

Aðstandendafélag vistmanna á Hrafnistu auk vistmanna sem NFS ræddi við styðja heils hugar aðgerðir og kröfur ófaglærðra starfsmanna þrátt fyrir óhagræði sem það kunni að hafa í för með sér fyrir íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Þorleifur Jónsson dvelur á hjúkrunardeild Hrafnistu. Þegar ófaglært starfsfólk leggur niður störf á fimmtudag og föstudag næstkomandi, kemst hann ekki fram úr rúmi, því hann er lamaður fyrir neðan mitti og þarf aðstoð við að klæða sig og komast í hjólastólinn. Þrátt fyrir það styður hann baráttu starfsfólks fyrir bættum launum.

Leópold Jóhannesson er einnig vistmaður á Hrafnistu, hann segist ekki vita um neinn vistmann sem ekki styðji aðgerðirnar. Hann segir starfsfólkið sinna starfi sínu af samviskusemi þrátt fyrir mikið álag. Þetta verði að meta til fulls í launaútreikningum.

Elna Þórarinsdóttir, formaður Ættarbandsins, sem er félag aðstandenda vistmanna á Hrafnistu, segir aðstandendur styðja aðgerðir starfsfólks og vonast til að ríkið bregðist við vandanum svo lausn málsins þurfi ekki að hafa í för með sér hækkuð daggjöld.

Sveinn H. Skúlason, forstjóri Hrafnistuheimilanna, segist hafa skilning á kröfum starfsmanna en að erfitt sé að koma til móts við þær því ekki sé til peningur til þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×