Innlent

Stefnir í setuverkfall í vikunni

MYND/Teitur

Ekkert hefur þokast í kjarabaráttu ófaglærðs starfsfólks á dvalarheimilum aldraðra. Það stefnir því allt í tveggja sólarhringa setuverkfall síðar í vikunni.

Laun þeirra starfsmanna sem um ræðir eru á bilinu 105 til 130 þúsund á mánuði, en það vill sömu kjör og fólk fær í sambærilegum störfum hjá Reykjavíkurborg. Dvalarheimilin sem um ræðir eru Hrafnista í Reykjavík og Hafnarfirði, Grund, Vífilsstaðir, Víðines, Sunnuhlíð, Skógarbær og Dvalarheimilið Ás í Hveragerði.

Á annað þúsund manns dvelja á þessum heimilum og eru starfsmennirnir sem um ræðir um 900 talsins, en þeir gripu til sólarhrings setuverkfalls í síðustu viku og hyggja á tvöfalt lengra setuverkfall ef ekkert breytist. Að sögn Álfheiðar Bjarnadóttur, talsmanns starfsfólks á Hrafnistu í Reykjavík, er staðan óbreytt og engar viðræður hafa farið fram. Setuverkfall verði því líklega raunin frá og með miðnætti á fimmtudag.

Málið var rætt á Alþingi fyrir helgi og þar sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra að samningsumboðið lægi hjá Siv Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra. Hún var hins vegar ekki reiðubúin að kvitta undir það. Álfheiður segir að það sé lítilsvirðing gagnvart starfsfólkinu að ráðherrarnir vísi hvor á annan og neiti þannig að taka á málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×